Skrá mig inn

Öryggi í svefnumhverfinu

May 06, 2024

Öryggi í svefnumhverfinu

Það er að ýmsu að huga þegar við búum til öruggt svefnumhverfi fyrir börnin okkar og langar mig að byrja á því að leiða ykkur í gegnum þær ráðleggingar sem stofnunin American Academy of Pediatrics (AAP) hefur gefið út varðandi öruggt svefnumhverfi.

AAP er leiðandi í rannsóknum á vöggudauða í Bandaríkjunum og eru þessar ráðleggingar byggðar á rannsóknum þeirra.

Vöggudauði eða sudden infant death syndrome (SIDS) er undirflokkur sudden unexpected infant death (SUID) og verður þegar engin útskýring finnst á andlátinu eftir nákvæma rannsókn á atviki og krufningu. Að greina á milli vöggudauða (SIDS) og annarra ástæðna (SUID) eins og slysa í svefni getur verið erfitt, því oft er ekki hægt að aðgreina hvort um hafi verið að ræða slys í svefni s.s. köfnun eða ekki með krufningu. Ástæðan getur því verið óljós eftir fulla rannsókn. Margir áhættuþættir fyrir vöggudauða og köfnun eru mjög líkir.

Þessar ráðleggingarnar eru gefnar út með það að markmiði að minnka líkur á vöggudauða og slysum í svefni á fyrsta aldursári.

 • Leggðu barnið þitt alltaf til svefns á bakið
 • Notaðu stífa, flata dýnu. Svefnundirlagið á ekki að sveigjast niður hjá rassinum, ef sveigjan er stærri en 10° telst það ekki öruggt. 
  • Stíf dýna heldur formi þegar barnið er lagt á dýnuna, það kemur ekki dæld í dýnuna þar sem höfuð barnsins liggur.
 • Hafðu barnið á brjósti ef þú getur.
 • Barnið ætti að sofa í herbergi foreldra, nálægt rúmi foreldra en á eigin svefnstað fyrstu 6 mánuðina.
 • Engin laus rúmföt eða mjúkir hlutir í rúminu. Rúmið á að vera alveg autt.
  • Notið ekki þyngdarteppi eða aðrar þyngdar vörur.
  • Að klæða barnið í lög af fötum er æskilegt í stað þess að nota lausar ábreiður.
 • Íhugaðu að bjóða snuð á svefntíma. Ef barnið er á brjósti er snuðið ekki boðið fyrr en brjóstagjöfin er komin vel á veg.
 • Forðastu reykingar á meðgöngu og eftir fæðingu. Forðastu reykingar í umhverfi ungabarnsins.
 • Forðastu áfengi og fíkniefni á meðgöngu og eftir fæðingu.
 • Forðastu ofhitnun og að hylja höfuð eða andlit barnsins.
  • Ekki setja húfu á barnið innandyra, að undanskyldum fyrstu klukkustundunum eftir fæðingu eða á nýburagjörgæslu.
 • Þungaðar konur ættu að fara í reglubundið eftirlit í meðgönguvernd.
 • Ungabörn ættu að vera bólusett samkvæmt verklagi.
 • Forðist notkun auglýstra vara sem samræmast ekki öruggu svefnumhverfi.
 • Ekki nota hjarta- og öndunar eftirlitstæki sem leið til að draga úr líkum á vöggudauða.
  • Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi tæki minnki líkur á vöggudauða.
  • Það er eru engar frábendingar frá því að nota þessi tæki en þau koma ekki í stað öruggs svefnumhverfis.
 • Gefið barninu tíma til að liggja á maganum (e. tummy time) undir eftirliti þegar það vakir. Byrjið fljótlega eftir heimkomu á stuttum tíma í einu, aukið tímann jafnt og þétt upp í 15-30 mín samtals á dag við 7 vikna aldur.
 • Reifun minnkar ekki líkur á vöggudauða
  • Reifun er oft notuð sem leið til að róa nýbura. Ef barnið er reifað skal það alltaf lagt á bakið, hætta á vöggudauða eykst ef reifað barn er lagt á magan eða rúllar sér yfir á magann.
  • Reifunin ætti að vera þétt um bringu en lausari um mjaðmir til að styðja við eðlilegan þroska mjaðma.
  • Þyngd reifunarsjöl eru ekki örugg og því ekki ráðlögð.
  • Þegar barnið sýnir merki um að það sé að reyna að rúlla sér (yfirleitt við um 3-4 mánaða aldur) ætti að hætta að reifa barnið.

Í þessum ráðleggingum kemur fram að stofnunin skilji og virði að margir foreldrar velji að deila rúmi með barninu sínu af ýmsum ástæðum, t.d. til að auðvelda brjóstagjöf eða í þeirri trú að það sé betra og öruggara fyrir barnið. Stofnunin getur hins vegar ekki, byggt á rannsóknum, ráðlagt foreldrum að deila rúmi með barninu undir neinum kringumstæðum. Eftirfarandi þættir auka áhættuna ef rúmi er deilt með barninu:

 • Foreldri er með skerta árvekni eða getu til að vakna vegna áfengis, lyfja eða ofþreytu.
 • Foreldri reykir eða móðir reykti á meðgöngu.
 • Sofið er á mjúkri dýnu eins og vatnsdýnu, gamalli dýnu, sófa eða hægindastól.
 • Barnið er yngra en 4 mánaða, jafnvel þó foreldrar reyki ekki og þó að barnið sé á brjósti. Þetta er sérstaklega viðkvæmur tími.
 • Deilt er rúmi með öðrum en foreldrum.
 • Barnið er fyrirburi eða léttburi, jafnvel þó foreldrar reyki ekki.
 • Deilt er rúmi með mjúkum sængum, koddum eða teppum.

Sjá grein AAP í heild sinni hér.

Viltu hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel á eigin svefnstað? 
Netnámskeiðin mín innihalda allar þær upplýsingar sem þú þarft til að hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel.

 

Nýburinn: 0-12 vikna
Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán
Betri svefn: 2-4 ára

 

Rúmi deilt á öruggan hátt

Fræðimenn eins og James McKenna hafa gagnrýnt að ráðið sé frá því að deila rúmi með barninu. Hann telur að sé það gert á öruggan hátt auki það ekki líkur á vöggudauða. Þau skilyrði sem hann setur til þess að mögulegt sé að deila rúmi á öruggan hátt eru nokkuð ströng.

Skilyrði:

 • Barnið ætti að sofi á auðri, stífri dýnu. Dýna út á miðju gólfi án gafls er ókjósanlegast.
 • Barnið ætti að búa í reyklausu umhverfi.
 • Barnið ætti að leggja til svefns á bakið. Ef barnið drekkur brjóst ætti að leggja það aftur á bakið eftir gjöf.
Þú ættir ekki að deila rúmi með barninu þínu ef:
 • Barnið er ekki á brjósti.
 • Foreldrar hafa skerta árvekni eða getu til að vakna vegna áfengis eða lyfja.
 • Annað hvort foreldrið er veikt, það þreytt að það er erfitt fyrir það að bregðast við barninu eða ef foreldrið sem sefur við hlið barnsins er mun þreyttara en vanalega.
 • Ef það er bil á milli rúms og veggs sem barnið gæti fests í. Dýnan ætti að passa vel í höfuð- og fótgafl eða fjarlægja alla gafla ef mögulegt er.
 • Foreldrið sem sefur við hlið barnsins er í mikilli ofþyngd, nema búið sé að gera ráðstafanir til að vega upp á móti þessum mikla þyngdarmun.
 • Eldri systkini sem skilja ekki hættuna á köfnun, sofa einnig í rúminu.
 • Dýr sofa í rúminu.
 • Þú notar þykkar sængur eða rúmföt. Kodda, sæng og öðrum rúmfötum ætti að halda frá barninu og nota frekar lak eða teppi sem andar, helst úr bómull. Í köldu veðri ætti að nota fleiri lög af þunnum rúmfötum í staðin fyrir þykkt teppi eða sæng.
 • Ekkert ætti að hylja höfuð eða andlit barnsins.
 • Ekki klæða barnið of vel, ef þér líður vel, líður barninu líklegast vel líka. Líkamleg nánd við barnið eykur líkamshita.
 • Ef þú ert með sítt hár ættir þú að festa það upp og passa að engar reimar eða strengir séu á náttfötunum þínum sem gætu flækst í barninu.
 • Aldrei skilja barnið eftir eitt og eftirlitslaust í rúmi foreldra

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

Hafa Samband