Skrá mig inn

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið

May 06, 2024

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið

 

Ert þú á leiðinni í frí og hefur áhyggjur af svefni barnsins þíns?

 Það er fullkomlega eðlilegt, en ekki láta áhyggjur af svefninum skemma fyrir þér eftirvæntinguna eða fríið sjálft, þetta mun allt vera þess virði þó að svefninn fari aðeins út af beinu brautinni.

Hér eru mín ráð varðandi svefn og ferðalög:

 

Svefn í aðdraganda ferðalagsins

Ef barnið sefur almennt vel heima er það líklegra til að sofa vel á ferðalagi og jafnvel þó svefninn fari aðeins í rugl á ferðalagi er líklegt að barnið muni fara aftur að sofa vel fljótlega eftir að heim er komið. Ef barnið er nýfarið að sofa vel eftir svefnstuðning er gott að bíða með ferðalög í 2-3 vikur svo að þessi nýja færni festist vel í sessi eða bíða með svefnstuðninginn þar til heim er komið.

Einnig er gott að huga vel að góðum svefni í aðdraganda ferðalagsins, svo að ferðalagið verði auðveldara með vel úthvílt barn. Það er oft margt sem þarf að gera í aðdraganda ferðalags og því getur dagrútínan ruglast, en reynið þessa síðustu daga fyrir brottför að varðveita góða dagrútínu.

 

Pakkaðu svefnumhverfinu með

Takið með ykkur allt sem barnið er vant að sofa með og reynið að hafa svefnumhverfið eins líkt því sem það er heima.

  • Sami umbúnaður og barnið er vant: lak, (jafnvel notað svo að lyktin sé kunnugleg), svefnpoki, huggunardýr ef barnið notar svoleiðis.
  • Nóg af snuðum ef barnið notar snuð.
  • White noise tæki ef barnið notar það.
  • Bækur eða annað sem þið þurfið fyrir rútínuna fyrir svefninn.

Reynið að halda rútínunni fyrir svefninn eins líkri því sem barnið er vant heima, hún lætur barnið vita að nú sé það að fara að sofa, svo það fer að undirbúa sig fyrir svefninn.  

Ef barnið er vant að sofa í eigin herbergi heima reynið að koma því við á ferðalagi. Ef það er ekki möguleiki hafið þá rúmið eins langt frá ykkar rúmi og þið getið og ef þið getið stúkað það af á öruggan hátt er það góður kostur.

 

Lúrar í nýju umhverfi

Það getur verið erfitt fyrir börn að sofna um miðjan dag í nýju umhverfi, áreitið er oft mikið og allt er nýtt í umhverfinu. Settu a.m.k. einn lúr í forgang, þar sem róandi rútína fyrir lúrinn er til staðar og svefnumhverfið gott svo að barnið er líklegra til að ná góðum lúr. Restin af deginum mun vera þess virði, því að allt það skemmtilega sem þið hafið planað yfir daginn gæti orðið ekki svo skemmtilegt með úrvinda barn.

Ef barnið nær ekki að taka a.m.k. einn góðan lúr yfir daginn getur þú vegið upp á móti með því að setja það 30-60 mín fyrr að sofa fyrir nóttina.

 

Hvað með tímamismun og að komast í rútínu í nýju tímabelti?

Ef tímamismunurinn er ekki þeim mun meiri mæli ég með að halda barninu á tímabelti heimalandsins hafir þú tök á því. Það gerir allt einfaldara og getur verið mjög heppilegt, t.d. ef fríið er á Spáni þar sem er 2 klst tímamismunur væri barnið í 9-9 rútínu. Það gefur ykkur færi á seinni kvöldverði og að sofa aðeins lengur á morgnanna.

Ef þið eruð að ferðast vestur þar sem tíminn færist framar, klukkan er t.d. 3 um nótt í nýja landinu á meðan hún er 7 um morgun heima og 3 um dag á háttatíma. Reyndu þá að koma inn stuttum síðdegislúr til þess að brúa bilið fram að háttatíma í nýja landinu. Ef tímamismunurinn er ekki svona mikill og þú sérð ekki fram á að geta komið inn síðdegislúr reyndu þá að draga háttatímann aðeins nær nýja háttatímanum, en þó ekki þannig að barnið verði orðið úrvinda.

Ef barnið vaknar snemma í nýja landinu, reyndu þrátt fyrir það að byrja daginn á eðlilegum tíma, þú heldur þá öllu rólegu og dimmu fyrir kl. 6:30. Það hjálpar líkamsklukkunni að stilla sig af. Verjið síðan tíma úti í birtunni yfir daginn og leyfið barninu að hreyfa sig. Þú gætir þurft að teygja aðeins vökugluggana yfir daginn til að byrja með til að hjálpa barninu að færa sig yfir á nýja tímabeltið en við viljum þó passa að barnið verði ekki úrvinda. Erum bara að tala um 5-15 mínútur. Reyndu að forðast mjög langa lúra yfir daginn (langt yfir 2 klst) svo að barnið eigi pottþétt inni fyrir góðum nætursvefni.

 

Hvað ef allt fer úrskeiðis?

Ef allt fer í bál og brand skoðaðu ráðin hér fyrir ofan og sjáðu hvort það er eitthvað sem þú getur gert til að komast á betri stað.

Mundu að þetta er bara tímabundið og þegar þið komið til baka getið þið unnið að bættum svefni á ný. Ef barnið þitt var vant að sofa vel hefur það ekki misst getuna til að sofa vel, trúðu mér. Það er alveg eðlilegt að svefninn fari í smá rugl á ferðalagi. Reyndu að njóta frísins og samveru með fjölskyldu og vinum, slaka og búa til góðar minningar. Þetta mun allt vera þess virði.

 

Þegar heim er komið

Það getur tekið nokkra daga að komast aftur í góða rútínu eftir að heim er komið. Ef þú átt námskeið, farðu aftur yfir það, yfir planið sem þú bjóst til og fylgdu því af staðfestu. Það ætti ekki að taka nema 3-5 daga fyrir svefninn að verða góðan á ný.

Ef þú vilt hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel eða komast aftur í rútínu eftir frí geta netnámskeiðin mín hjálpað þér:

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

Hafa Samband