Skrá mig inn

Afturför á svefni við 4 mánaða aldur

May 06, 2024

Afturför á svefni við 4 mánaða aldur

 

Þegar þú hefur loksins áttað þig á svefnmystri barnsins þíns og það er farið að sofa lengur í einu yfir nóttina kemur þessi skellur. Allt í einu fer barnið að vakna eftir 45 mín lúra, það er orðið erfitt að svæfa það og það er farið að vakna oftar yfir nóttina, jafnvel á 2 klst fresti. Barnið þitt er mjög líklega að ganga í gegnum 4 mánaða „sleep regression“ eða svefn afturför, sem er þó í raun alls ekki afturför heldur framför og merki um mikinn þroska.

Svefn barna er ekki beinn vegur, eftir því sem þau eldast og þroskast ganga þau í gegnum mismunandi tímabil sem geta haft áhrif á svefninn þeirra og valdið þessum afturförum. Þessi tímabil hafa verið tengd við 4, 8, 12, 18 og 24 mánaða aldur, en þessi afturför þarf ekki endilega að gerast akkúrat á þessum aldri heldur er bilið nokkuð breitt. Þessi tímabil tengjast því yfirleitt að mikill þroski sé að eiga sér stað, líkamlegur eða vitsmunalegur.

Það sem skilur afturför á svefni við 4 mánaða aldur frá öðrum afturförum er að breytingin sem verður á svefnmynstri barnsins er varanleg, þetta er merki um mikinn þroska og í raun framför, því barnið er að taka stórt skref í átt að því að sofa svefni sem líkist svefni okkar fullorðinna. Þegar þessi þroski hefur átt sér stað fer barnið í gegnum fleiri svefnstig á meðan það sefur og hvert svefnstig hefur ákveðin tilgang t.d. varðandi frumuvöxt, tilfærslu á minni, endurheimt orku og að styðja við andlegan og líkamlegan þroska.

 

Hversu lengi mun þessi afturför vara?

Eins og áður sagði er þetta varanleg breyting á svefnmynstri barnsins. Börn sem geta sofnað án mikillar aðstoðar frá foreldrum eða umönnunaraðila sýna oft ekki miklar breytingar á svefninum, en þau sem þurfa mikla aðstoð við að sofna, fara að þurfa þessa sömu aðstoð til að sofna aftur þegar þau vakna eftir hvern svefnhring, dag sem nótt. Þau börn gætu þurft hjálp við að æfa sig í að sofna og sofna aftur án aðstoðar.

Þó að þetta sé varanlega breyting, þýðir það ekki að barnið þitt geti ekki lært að sofa vel.

 

Hvað get ég gert?

Barnið þitt þarf að aðlagast þessum breytingum og þú getur hjálpað því.

með því að huga að svefnumhverfinu, viðeigandi vökugluggum, góðri rútínu yfir daginn og hjálpa því að læra að sofna og sofna aftur á milli svefnhringja án þinnar aðstoðar.

  • Svefnumhverfið: myrkur, passlegt hitastig og rólegt umhverfi sem barnið þitt tengir við svefn.
  • Viðeigandi vökugluggar: að barnið sé hvorki of lítið né mikið þreytt þegar það er lagt til svefns.
  • Fyrirsjáanleg rútína yfir daginn: ef barnið tekur lúra á svipuðum tíma alla daga hjálpar það barninu að eiga auðvelt með að sofna og sofa vel.
  • Hjálpaðu barninu þínu að læra að sofna: ef barnið þitt getur sofnað án aðstoðar geturðu farið að kenna því að sofna aftur sjálft eftir hvern svefnhring og tengja þannig svefnhringi, sem skilar sér í lengri lúrum og lengri nætursvefni.

Það er fullkomlega eðlilegt að svefn barna breytist og að upp komi vandamál í tengslum við svefn á þessum aldri. Það getur tekið tíma fyrir sum börn að aðlagast þessum breytingum og öðlast þá hæfni að sofna og sofna aftur án aðstoðar foreldra eða umönnunaraðila. Gefið ykkur tíma í að æfa þessa færni.

 

Viltu hjálp varðandi svefn barnsins þíns?

Netnámskeiðin mín innihalda allar þær upplýsingar sem þú þarft til að hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel.

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

Hafa Samband